Flestir eiga eitthvað af stuttermabolum inni í skáp. Vinnubolir, hljómsveitabolir, grínbolir, kvikmyndabolir eða bolir með pólitískum skilaboðum eru alls staðar í kringum okkur. En hvaðan kemur stuttermabolurinn eins og við þekkjum hann í dag?
upphafið
Fyrstu stuttermabolirnir voru framleiddir af bandaríska hernum til að hafa undir búningi hermanna. Uppgjafahermenn notuðu svo bolina eftir að hafa lokið þjónustu og þannig byrjaði stuttermabolurinn að ryðja sér rúms meðal almennings á 3. og 4. áratug síðustu aldar. Verkamenn notuðu stuttermabolinn einnig mikið þar sem hann þótti léttur og þægilegur.
BRANDO & DEAN
Árið 1951 urðu straumhvörf í dreifingu á stuttermabolum þegar Marlon Brando klæddist stuttermabol í kvikmyndinni A Streetcar Named Desire. Fjórum árum síðar klæddist svo hjartaknúsarinn James Dean bol í myndinni „Rebel Without a Cause“. Stuttermabolurinn varð þannig gífurlega vinsæll hjá yngri kynslóðinni og rauk sala á bolum upp úr öllu valdi.
Prentaðir bolir yfirtaka markaðinn
Fyrirækið Tropic Togs varð svo fyrsta fyrirtækið til að framleiða merkta boli þegar það fékk einkarétt á að merkja og selja boli fyrir Walt Disney fyrirtækið. Þannig byrjaði sala á merktum bolum á 6. áratugnum. Í kjölfarið byrjaði tónlistariðnaðurinn að selja merkta boli á 7. og 8. áratugnum. Í dag er enn hægt að finna boli með tungu Rolling Stones eða loftfari Led Zeppelin og voru þeir á meðal fyrstu prentuðu bolanna sem seldir voru.
Pólitísk áhrif
En stuttermabolurinn var notaður fyrir annað og meira en hljómsveitir og teiknimyndafígúrur því í lok 7. áratugarins hannaði Warren Dayton bol með andliti Che Guevara framan á sem flestir þekkja enn þann dag í dag.
Á níunda áratugnum hannaði svo Katharine Hamnett boli í yfirstærð með risaletri framan á og lifir sá stíll enn góðu lífi. Flestir muna sjálfsagt eftir WHAM dúettnum í bolum frá Katharine.
Aðrir áhrifavaldar
Árið 1977 hannar Milton Glaser „I Heart NY“ bolinn fyrir New York fylki. Síðan þá hafa fjölmargir, eftirminnilegir bolir litið dagsins ljós. Flestir, ef ekki allir, eiga sér uppáhaldsbol sem tengdur er bíómynd, ofurhetju, hljómsveit eða nánast hverju sem er. Hér eru örfá dæmi um boli sem flestir ættu að kannast við.
Hér fyrir neðan má sjá vinsælustu bolina okkar. Þú getur einnig skoðað alla bolina okkar með því að ýta á takkann hér til hliðar.